Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 419  —  345. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006 (minnihlutavernd o.fl.).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.



1. gr.

    Á eftir 33. gr. laganna kemur ný grein, 33. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Úrræði Fiskistofu.

    Sé leyfisskyld framkvæmd samkvæmt lögum þessum hafin án leyfis getur Fiskistofa stöðvað hana tafarlaust. Ef staðið er þannig að framkvæmd eða starfsemi að ekki samrýmist lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða útgefnu leyfi skal Fiskistofa veita framkvæmdaraðila skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Ef þá er ekki farið að fyrirmælum er heimilt að stöðva framkvæmd eða starfsemi og beita dagsektum þar til úr hefur verið bætt. Dagsektir geta numið 10.000–500.000 kr. Við ákvörðun dagsekta skal tekið tillit til eðlis vanrækslu eða brots og þeirra hagsmuna sem eru í húfi. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt þeim sem hún beinist að á sannanlegan hátt. Dagsektir renna í ríkissjóð.
    Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða Fiskistofu við aðgerðir skv. 1. mgr.
    Heimilt er Fiskistofu að afturkalla leyfi sem gefið er út samkvæmt lögum þessum ef um ítrekaða vanrækslu leyfishafa er að ræða eða ljóst er að hann getur ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt leyfinu.
    Heimilt er Fiskistofu að mæla fyrir um að sá sem staðið hefur að óheimilum framkvæmdum fjarlægi mannvirki, lagi jarðrask og færi umhverfið til fyrra horfs. Ef slíkri skyldu er ekki sinnt innan þeirra tímamarka sem Fiskistofa ákveður er heimilt að láta vinna verkið á kostnað hins brotlega. Skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða úr ríkissjóði en innheimtur síðar hjá hlutaðeigandi.
    Áður en gripið er til úrræða skv. 3. eða 4. mgr. skal veita skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.
    Dagsektir skv. 1. mgr. og krafa um endurgreiðslu kostnaðar skv. 4. mgr. eru aðfararhæfar.
    Úrræði Fiskistofu samkvæmt þessu lagaákvæði koma til viðbótar öðrum úrræðum opinberra aðila, m.a. á grundvelli vatnalaga, skipulagslaga og laga um mannvirki.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Á fundi veiðifélags má ekki taka ákvörðun sem er ætlað að afla ákveðnum félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins.
                      Við ákvörðun um ráðstöfun veiðiréttar, skv. d-lið 1. mgr. 37. gr., þarf samþykki hið minnsta 2/ 3 hluta atkvæða ef lagt er til að draga úr veiði frá því sem tíðkast hefur á viðkomandi veiðisvæði, nema breytingarnar séu óverulegar.
                      Ef tillaga kemur fram á félagsfundi um að ráðstafa rétti til stangveiði til félagsmanns í veiðifélaginu eða til aðila sem tengjast honum þarf samþykki hið minnsta 2/ 3 hluta atkvæða. Þetta gildir þó aðeins ef hlutaðeigandi félagsmaður eða aðilar sem tengjast honum fara að lágmarki með 30% atkvæða. Hugtakið tengdir aðilar í skilningi ákvæðisins hefur sömu merkingu og í lögum um ársreikninga. Skylt er að tilkynna eigi síðar en á félagsfundi ef tengsl eða atkvæðavægi er sem segir í þessari grein.
                      Matsnefnd skv. VII. kafla sker úr um ágreining um þau atvik sem greinir í 3. eða 4. mgr. Kærufrestur skal vera tvær vikur og hafa þeir einir kærurétt sem lögvarða hagsmuni hafa af úrlausn málsins. Óheimilt er veiðifélagi, eða veiðifélagsdeild, að gera bindandi samning um ráðstöfun veiðiréttar á meðan kærufrestur varir. Sé kæra lögð fram innan kærufrests er óheimilt að gera bindandi samning þar til matsnefnd hefur endanlega leyst úr málinu. Matsnefnd getur þó, hvort heldur er að kröfu málsaðila eða að eigin frumkvæði, tekið ákvörðun um að aflétta banni við samningsgerð ef ólíklegt er að meðferð nefndarinnar leiði til breytinga á ákvörðun veiðifélags. Úrskurður matsnefndar skal kveðinn upp innan átta vikna eftir að kæra barst nefndinni. Ef úrskurður hefur ekki verið kveðinn upp fyrir þann tíma er veiðifélagi heimilt að hrinda hinum umdeildu ákvörðunum í framkvæmd og getur matsnefnd þá ekki ógilt bindandi ákvarðanir.
     b.      Orðin „í ákveðnum hlutföllum“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
     c.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef ekki næst sameiginleg niðurstaða geta 2/ 3 hlutar sameigenda eða ábúenda tekið ákvörðun um það hver fari með atkvæðisréttinn. Um innbyrðis atkvæðavægi fer eftir almennum reglum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Einn skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar og einn að fenginni ábendingu Hafrannsóknastofnunar.
     b.      2. málsl. 4. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
     a.      Orðin „og rennur hann í ríkissjóð“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað 2. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Veiðifélag skal að jafnaði bera kostnað af ágreiningsmálum og endurskoðun arðskrár. Ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi máls getur nefndin úrskurðað kæranda til að greiða veiðifélagi málskostnað.
     c.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Matsnefnd getur krafið veiðifélag um tryggingu fyrir þóknun sinni og öðrum kostnaði, en krafa um það skal byggjast á rökstuddri kostnaðaráætlun og koma fram við fyrstu fyrirtöku máls.

5. gr.

    Á eftir 2. mgr. 49. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef ákvörðun skv. 3. mgr. 40. gr. leiðir til tjóns fyrir veiðiréttarhafa skulu þeir sem lögðust gegn ákvörðuninni eiga rétt til bóta úr hendi þeirra sem greiddu tillögunni atkvæði sitt, á meðan sú ákvörðun gildir, nema hún hafi byggt á málefnalegum rökum. Þeir sem greiddu tillögunni atkvæði sitt eru sameiginlega ábyrgir gagnvart þeim sem lögðust gegn henni, en um bótaskyldu þeirra innbyrðis ræður hlutfall í arðskrá.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó getur ákvæði 1. gr. gilt um framkvæmdir sem hafnar eru eða lokið er áður en lög þessi öðlast gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, sem miða einkum að því að styrkja minnihlutavernd í veiðifélagi með sérstökum reglum um atkvæðavægi á fundum. Þá eru lagðar til fjórar breytingar til viðbótar. Í fyrsta lagi breytingar sem skerpa á úrræðum Fiskistofu, m.a. vegna ólögmætra framkvæmda. Í öðru lagi breytingar sem auðvelda sameigendum að taka þátt í atkvæðagreiðslum innan veiðifélaga. Í þriðja lagi breyting á kostnaðarfyrirkomulagi vegna starfa matsnefndar skv. VII. kafla laganna. Loks í fjórða lagi breyting á skipan matsnefndar. Á síðasta löggjafarþingi var lagt fram frumvarp sem stefndi að sömu markmiðum en var ekki útrætt (251. mál, þskj. 272). Unnið hefur verið með þær athugasemdir og tillögur sem fram komu við meðferð málsins á Alþingi og er frumvarpið afrakstur þeirrar vinnu.

2. Tilefni, nauðsyn og meginefni.
    Með lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, er mælt fyrir um skyldu manna til að vera í veiðifélagi og það hlutverk félagsins að skipta veiði eða arði af veiði milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra. Eigendur eða ábúendur jarða sem njóta veiðiréttar fara með eitt atkvæði fyrir hverja jörð á félagsfundi veiðifélags skv. 40. gr. laganna. Ein þýðingarmesta ákvörðun hvers veiðifélags í veiðivatni er ráðstöfun veiði með samningum við leigutaka, yfirleitt til nokkurra ára í senn.
    Af 1. gr. laganna er ljóst að gengið er út frá því að fiskstofnar í ferskvatni séu nýttir, þ.e. að þeir séu veiddir, en það ber að gera á skynsamlegan, hagkvæman og sjálfbæran hátt. Fyrir tilkomu skylduaðildar að veiðifélögum gat hver landeigandi veitt fyrir sínu landi og leigt út sinn veiðirétt. Meginreglan í gildandi lögum er aftur á móti sú að veiðiréttarhöfum er óheimilt að veiða í vatni á félagssvæði sínu nema samkvæmt heimild frá veiðifélaginu, sbr. 3. mgr. 37. gr. laganna. Tilgangurinn með þessu er að nýta hinn sameiginlega fiskstofn til hagsbóta fyrir heildina.
    Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá október 2018 um efnahagslegt virði lax- og silungsveiðiréttinda kemur fram að beinar tekjur vegna laxveiði hafi verið 4,9 milljarðar kr. árið 2018. Þar af fóru um 2,8 milljarðar kr. beint til veiðiréttarhafa og 2,1 milljarður kr. til leigutaka. Ráðstöfun veiðiréttinda með útleigu hefur því verulega efnahagslega þýðingu.
    Lög um lax- og silungsveiði ganga út frá því að veiðiréttarhafar fái að nýta þau hlunnindi og fasteignaréttindi sem felast í veiði eða útleigu á veiðirétti. Veiðar skuli stundaðar með hagkvæmum og sjálfbærum hætti, en stjórnvöld geta gripið til ráðstafana ef talið er að hætta sé á ofveiði. Þannig kemur fram í 24. gr. laganna að ef nauðsyn ber til að draga úr veiði eða friða heilt vatn eða hluta þess um tiltekinn tíma gegn allri veiði eða takmarka einstakar veiðiaðferðir í vatninu til verndar fiskstofnum geti Fiskistofa sett reglur um slíka friðun, að fenginni tillögu eða umsögn Hafrannsóknastofnunar. Áður en slíkar reglur eru settar skal jafnan leita umsagnar viðkomandi veiðifélags. Ákvörðun á grundvelli 24. gr. byggist á fiskifræðilegu og sérfræðilegu mati viðkomandi stjórnvalda. Með hliðsjón af því að meginmarkmið laganna er hagkvæm og sjálfbær nýting fiskstofna má færa rök fyrir því að eðlilegt sé að friðun veiðisvæða sé fyrst og fremst tekin á þeim grunni, frekar en að félagsmenn í veiðifélagi taki slíkar ákvarðanir án þess að baki liggi málsmeðferð á grundvelli 24. gr.
    Færð hafa verið rök fyrir því að lítt hafi verið hugað að vernd minni hluta félagsmanna í veiðifélögum við síðustu endurskoðun laganna vorið 2006, en þá féllu úr gildi þau fyrirmæli 2. mgr. 48. gr. eldri laga að byggi maður á fleiri en einni jörð skyldi hann engu að síður aðeins hafa eitt atkvæði á félagsfundi. Samkvæmt gildandi lögum er meginreglan sú að afl atkvæða ræður á aðalfundum og almennum félagsfundum, sbr. 8. mgr. 40. gr. laganna. Í lögunum eru aðeins fáeinar undantekningar frá þessari reglu. Þetta þýðir meðal annars að meiri hluti í veiðifélagi getur komið í veg fyrir að veiðiréttinum sé ráðstafað með útleigu og jafnframt synjað veiðiréttarhafa um að fá að veiða í vatni. Sú staða getur því skapast að veiðiréttarhafi geti hvorki veitt fyrir sínu landi né notið arðs af þessum hlunnindum sínum. Felur þetta í sér umtalsverða takmörkun á hagnýtingar- og ráðstöfunarrétti viðkomandi veiðiréttarhafa. Við þetta bætist jafnframt að hann er skyldugur til aðildar að veiðifélaginu og getur því ekki gengið úr því. Þessi aðstaða getur orkað afar íþyngjandi fyrir veiðiréttarhafa.
    Af þessum sökum getur verið bagalegt að atkvæði í veiðifélagi safnist á fárra hendur vegna þess mikla valds sem meiri hlutinn hefur í veiðifélögum.
    Tvenns konar hætta er við að atkvæði safnist á fárra hendur. Annars vegar að þeir sem fara með meiri hluta atkvæðisréttarins taki ákvörðun um takmörkun veiði, eða jafnvel friðun árinnar, í andstöðu við markmið laganna um skynsamlega og hagkvæma nýtingu. Hins vegar að þeir sem fara með talsvert atkvæðavægi taki ákvörðun um að ráðstafa veiðiréttinum til sín eða tengdra aðila. Markmið frumvarpsins er að takmarka þá hættu sem í þessu felst.
    Þá er í frumvarpinu lagt til að Fiskistofa fái aukin úrræði til að bregðast við óleyfisframkvæmdum og brotum gegn þeim leyfum sem hafa verið veitt. Þá er lagt til að breytingar verði gerðar á reglum um ákvarðanatöku þegar jarðir eða veiðiréttur er í sameign, til að draga úr líkum á því að atkvæði falli niður við þær aðstæður.
    Loks eru lagðar til ákveðnar breytingar á fyrirkomulagi kostnaðar vegna starfa matsnefndar skv. VII. kafla laganna og um hvernig skipað verði í nefndina. Lagt er til að ráðherra skipi tvo fulltrúa þar sem annar verður skipaður samkvæmt ábendingu Hafrannsóknastofnunar. Með þessu er lagt til að Hæstiréttur annist ekki lengur þá stjórnsýslu að tilnefna fulltrúa í nefndina. Um nánari skýringu á þessari tillögu vísast til skýringa við frumvarp það um minnihlutavernd í veiðifélögum sem kom fram á síðasta löggjafarþingi (þskj. 272. á 150. löggjafarþingi).

3. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins eiga menn rétt til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þ.m.t. stjórnmálafélög og stéttarfélög. Þá segir í 2. mgr. að engan megi skylda til aðildar að félagi. Með lögum megi þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Viðurkennt er af dómstólum að horfa verður til mannréttindasáttmála Evrópu við túlkun þessara fyrirmæla. Í 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er m.a. kveðið á um að réttur til funda og félagafrelsis, sbr. 1. mgr. 11. gr., skuli eigi „háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi“.
    Skylduaðild að veiðifélögum hefur verið talin fullnægja þessum ákvæðum stjórnlaga og má um það vísa einkum til almennra athugasemda við frumvarp það er varð að gildandi lögum um lax- og silungsveiði þar sem fjallað er sérstaklega um þau sjónarmið sem búa að baki skylduaðildinni. Þar er bent á að tilgangur skylduaðildarinnar sé að stuðla að því að markmið laganna náist, þ.e. að tryggja skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Skylduaðildin þjóni þeim tilgangi fyrst og fremst að vernda réttindi annarra í skilningi 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans (þskj. 891 á 132. löggjafarþingi). Frumvarp þetta stefnir að sama markmiði og hin almenna félagsskylda og er nauðsynlegt að mælt verði fyrir um þær tillögur sem frumvarpið hefur að geyma með almennum lögum.
    Minnihlutavernd sem felst í samþykki aukins meiri hluta til óvenjulegra ráðstafana er vel þekkt í löggjöf, þ.m.t. í lögum um fjöleignarhús, nr. 2671994, og lögum um hlutafélög, nr. 2/1995. Þá leiðir af óskráðum réttarreglum um sérstaka sameign að í slíkum tilvikum kann að þurfa samþykki allra. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu létta því í reynd á þeim hömlum sem leiða af skylduaðildinni, þ.e. að veiðiréttarhafi á auðveldara með að ná fram hagkvæmri nýtingu á þessum þýðingarmiklu hlunnindum sínum. Á sama hátt verður erfiðara fyrir meiri hlutann að hamla eðlilegri nýtingu eða ákveða nýtingu sem er óhagkvæm eða að öðru leyti í andstöðu við markmið laganna.

4. Samráð.
    Frumvörp sambærileg þessu hafa í tvígang verið til meðferðar hjá Alþingi. Annars vegar í formi þingmannafrumvarps sem lagt var fram á 149. löggjafarþingi (464. mál, þskj. 683) og hins vegar stjórnarfrumvarps sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi (251. mál, þskj. 272), en umtalsvert samráð og kynning fór fram á síðarnefnda frumvarpinu. Það var kynnt í frumdrögum í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-162/2019) auk þess sem það fór í gegnum hefðbundið umsagnarferli hjá atvinnuveganefnd. Brugðist hefur verið við þeim athugasemdum sem bárust nefndinni með því leggja til aðra nálgun til að ná sömu markmiðum um vernd minni hluta. Við vinnslu þessa frumvarps var haft samráð við Landssamband veiðifélaga og Fiskistofu.

5. Mat á áhrifum.
    Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá október 2018, sem unnin var fyrir Landssamband veiðifélaga njóta um 4.500 lögbýli veiðiréttinda í veiðifélagi. Mestar tekjur af veiðihlunnindum eru álitnar á Vesturlandi (33,8%), síðan Norðurlandi (28,2%) og loks á Suðurlandi (21,5%). Vísast um þetta nánar til skýrslunnar sem birt er á vef Landssambandsins. Af þessu er ljóst að mikill fjöldi landeigenda um allt land hefur hagsmuni af ákvörðunum sem veiðifélög taka um ráðstöfun veiði og úthlutun arðs. Frumvarpið varðar því umtalsverða hagsmuni.
    Frumvarpið felur í sér að matsnefnd skv. VII. kafla laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, eru falin frekari verkefni, en á móti er lagt til að ríkissjóður leggi ekki út fyrir kostnaði af starfi nefndarinnar heldur að veiðifélög greiði að jafnaði kostnaðinn. Frumvarpið felur ekki í sér áhrif á áætlaðar fjárheimildir.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í þessari grein er lagt til að Fiskistofa fái sambærileg úrræði og Orkustofnun hefur á grundvelli 145. gr. vatnalaga, nr. 15/1923. Nauðsynlegt er að Fiskistofa geti stöðvað óleyfisframkvæmdir og afturkallað leyfi til að bregðast við brotum leyfishafa eða ítrekaðri vanrækslu. Í síðustu málsgrein greinarinnar er áréttað að úrræði Fiskistofu séu til viðbótar þeim sem mælt er fyrir um í öðrum lögum. Þetta er gert svo að ekki fari milli mála að Orkustofnun getur beitt úrræðum 145. gr. vatnalaga ef við á. Þá getur einnig komið til valdbeitingar skipulags- og byggingarfulltrúa (og eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar) ef brotið er gegn lagaákvæðum um byggingar- og framkvæmdaleyfi, sbr. 8., 55. og 56. gr. mannvirkjalaga, nr. 160/2010, og 16., 53. og 54. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Þótt grípa megi til úrræða á grundvelli fyrrnefndra laga er eðlilegt að hið sérfróða stjórnvald, Fiskistofa, hafi sambærilegar heimildir, auk þess sem stjórnvaldið gæti gripið til aðgerða ef svo ólíklega færi að um væri að ræða framkvæmd sem væri leyfisskyld á grundvelli laga nr. 61/2006 en ekki annarra laga. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 2. gr.

    Með greininni eru lagðar til viðamiklar breytingar á 40. gr. laganna.
    Með a-lið greinarinnar er lagt til að fjórar nýjar málsgreinar bætist við lagagreinina. Líkt og rakið er í greinargerð er markmið frumvarpsins að takmarka þá hættu sem annars vegar felst í því að þeir sem fara með meiri hluta atkvæðisréttarins taki ákvörðun um takmörkun veiði í andstöðu við markmið laganna um skynsamlega og hagkvæma nýtingu og hins vegar að þeir sem fara með talsvert atkvæðavægi taki ákvörðun um að ráðstafa veiðiréttinum til sín eða tengdra aðila.
    Í fyrstu málsgreininni, sem verður ný 2. mgr., er lagt til að lýst verði óheimilt að taka ákvörðun sem er ætlað að afla ákveðnum félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins. Um er að ræða vísireglu um góða félagshætti sem telja verður að rími við m.a. viðurlagaákvæði i-liðar 50. gr. laganna og er þekkt úr félagarétti, sbr. m.a. 70. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, og 95. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995. Þá má athuga að lík sjónarmið eru að baki hæfisreglum 10. gr. reglugerðar um starfsemi veiðifélaga þar sem einnig er kveðið á um að stjórn veiðifélags skuli haga störfum sínum þannig að jafnræðis sé gætt meðal félagsmanna. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins er því ætlað að vernda alla félagsmenn sem og félagið sjálft en ekki aðeins minni hluta félagsmanna fyrir ákvörðunum sem geta aflað félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins. Sem dæmi um tilvik sem kynnu að falla undir ákvæðið má nefna tillögu um að veiðistaðir væru ómálefnalega skilgreindir fyrir landi tiltekinna veiðiréttarhafa eða beiting friðunar sem væri í andstöðu við markmið laganna eða styddist ekki við fiskifræðileg rök. Ákvörðun um að ráðstafa veiðirétti til sjálfs sín eða tengdra aðila kynni að falla undir tilvik sem þessi, en rétt þótti að hafa sérstakt ákvæði um slík tilvik þar sem krafist væri aukins meiri hluta, sbr. ný 4. mgr. Félagsmenn geta, hver um sig, nýtt sér kæruheimild 43. gr. laganna ef uppi er ágreiningur um lögmæti ákvörðunar sem tekin hefur verið á fundi veiðifélags eða af félagsstjórn, og er kæru þá beint til Fiskistofu.
    Lagt er til í nýrri 3. mgr. að við ráðstöfun veiðiréttar skv. d-lið 1. mgr. 37. gr. laganna þurfi samþykki hið minnsta 2/ 3 hluta atkvæða ef lagt er til að draga úr veiði frá því sem tíðkast hefur á viðkomandi veiðisvæði, nema breytingarnar séu óverulegar. Með þessu ákvæði er leitast við að tryggja hagkvæma nýtingu og að ekki sé dregið úr veiði nema fyrir því sé aukinn meiri hluti, enda kann tillaga um að draga úr veiði að skaða veiðiréttarhafa fjárhagslega. Ef tillaga um að draga úr veiði byggist á málefnalegum rökum má ganga út frá því að hún hljóti brautargengi þrátt fyrir að gerð sé krafa um aukinn meiri hluta. Ef félagsmenn telja hættu á ofveiði, en ná ekki í gegn tillögu um að draga úr veiði, geta þeir leitast eftir því að Fiskistofa grípi til þeirra úrræða sem gert er ráð fyrir í lögunum. Þá verður að ganga út frá því að Fiskistofa samþykki ekki nýtingaráætlun ef hætta er á ofveiði. Þessu til viðbótar verður að hafa í huga að sérstaklega er áréttað í d-lið 1. mgr. 37. gr. laganna að við ráðstöfun á veiði skuli gætt að markmiðum laganna um sjálfbæra nýtingu. Þessi árétting og lögbundin úrræði stjórnvalda ættu að tryggja að ekki yrðu teknar ákvarðanir um ráðstöfun á veiði í andstöðu við markmið laganna um sjálfbæra nýtingu fiskstofna. Loks má ítreka það sem áður var nefnt í greinargerðinni að færa má gild rök fyrir því að eðlilegt sé að ákvörðun um að draga úr veiði sé tekin á fiskifræðilegum grunni.
    Í ákvæðinu er mælt fyrir um þá undantekningu að ekki þurfi aukinn meiri hluta ef breytingarnar eru óverulegar. Taka má sem dæmi að dregið sé úr stangafjölda úr átta í sjö, veiðidögum sé fækkað um 10% eða daglegur veiðitími styttur um klukkustund. Leggja verður á það áherslu að eigi regla þessi að ná tilgangi sínum verður beiting hennar að vera málefnaleg. Sem dæmi um hið öndverða má nefna það tilvik að meiri hluti í veiðifélagi dragi úr veiði smátt og smátt án þess að fyrir því séu efnisleg rök og geri þar með undantekningarregluna óvirka.
    Þá verður að nefna að tenging er á milli nýrrar 3. mgr. og 5. gr. frumvarpsins um bótaskyldu. Vísast nánar til skýringa við það ákvæði.
    Með nýrri 4. mgr. er lagt til að aukinn meiri hluta þurfi til að ráðstafa veiðirétti til félagsmanns í veiðifélaginu sem fer með að lágmarki 30% atkvæða eða til aðila sem tengjast honum. Ákvæðið styðst við þau rök að ráðstöfun veiðiréttar til sjálfs sín kunni við vissar aðstæður að vera ótilhlýðileg. Það þarf þó ekki að vera í öllum tilvikum, t.d. ef veiðiréttarhafi hefur reynslu og þekkingu á þessu sviði. Í slíkum tilvikum væri of viðurhlutamikið að banna þá tilhögun. Af þeim sökum er gerð krafa um aukinn meiri hluta við þessar aðstæður, en eins og með nýrri 3. mgr. verður að gera ráð fyrir að tillaga um ráðstöfun veiðiréttar til slíks aðila hlyti brautargengi ef um skynsama tilhögun væri að ræða.
    Í nýrri 5. mgr. er mælt fyrir um málskotsrétt veiðiréttarhafa til matsnefndarinnar ef ágreiningur er uppi um hvort þær aðstæður eru fyrir hendi sem greinir í ákvæðunum tveimur á undan. Árétta skal þó að ef ágreiningur er uppi um hvort ráðstöfun sé ótilhlýðileg er hægt að beina honum til Fiskistofu skv. 43. gr. laganna. Verkefni matsnefndarinnar á grundvelli frumvarpsins einskorðast við afmörkuð álitaefni og því ætti málsmeðferð og kostnaður að vera í lágmarki. Lagt er til að kærufrestur til matsnefndarinnar verði tvær vikur. Mikilvægt er að málum þessum sé hraðað og fengin sé skjót úrlausn nefndarinnar. Á sama hátt er mikilvægt fyrir veiðifélag að fyrirsjáanleiki ríki um þessi atriði, t.d. ef ganga þarf frá samningi við nýjan leigutaka. Lagt er til að veiðifélagi, eða veiðifélagsdeild, sé óheimilt að gera bindandi samning um ráðstöfun veiðiréttar á meðan kærufrestur varir. Sé kæra lögð fram innan kærufrests er gerð bindandi samnings óheimil þar til matsnefnd hefur endanlega leyst úr kærunni. Lagaákvæðið gerir, með öðrum orðum, ráð fyrir því að samningsgerð verði stöðvuð sjálfkrafa ef kæra er lögð fram innan kærufrests. Að öðrum kosti gæti kæruréttur veiðiréttarhafa orðið að engu ef veiðifélag hefur gengið frá samningi við leigutaka, enda engin lagaheimild fyrir því að matsnefndin ógildi slíkan samning. Matsnefndin getur þó, hvort heldur er að kröfu málsaðila eða að eigin frumkvæði, ákveðið að aflétta banni við samningsgerð. Fyrirmyndin að þessum hluta lagaákvæðisins er sótt í 107. gr. laga um opinber innkaup, nr. 120/2016, með þeirri undantekningu þó að matsnefndin á eingöngu að aflétta stöðvun samningsgerðar ef ólíklegt er að meðferð hennar leiði til breytinga á ákvörðun veiðifélags. Matsnefndin ætti því ekki að aflétta stöðvun nema t.d. ef kæran er tilefnislaus. Þá kemur fram í frumvarpinu að matsnefndin verði að komast að lokaniðurstöðu eigi síðar en átta vikum eftir að kæra berst, að öðrum kosti er veiðifélaginu heimilt að hrinda hinni umdeildu ákvörðun í framkvæmd. Af þessu leiðir að frestir málsaðila til andmæla eiga að vera skammir.
    Með b-lið frumvarpsgreinarinnar er lagt til að orðin „í ákveðnum hlutföllum“ í 2. málsl. 2. mgr. falli brott. Tilgangur umrædds málsliðar er að árétta að skipting fasteignar leiði ekki til aukins atkvæðisréttar, eins og einnig má leiða af 1. og 4. mgr. 40. gr. Þegar fasteign er skipt með réttmætum hætti leiðir það þó ekki til þess að hún sé eftirleiðis í ákveðnum hlutföllum heldur er tilgangur skiptingar yfirleitt sá að binda enda á sameignarfyrirkomulag. Orðin „í ákveðnum hlutföllum“ eru því óþörf og fremur til þess fallin að valda ruglingi og er því lagt til að þau verði tekin út.
    Með c-lið er lagt til að 2/ 3 hlutar sameigenda að jörð eða veiðirétti geti ákveðið hver fari með atkvæðisrétt innan veiðifélags. Sama gildir um þau tilvik þegar fleiri en einn ábúandi fer með atkvæðisrétt tiltekinnar jarðar. Dreift eignarhald á jörðum hefur á síðustu árum í auknum mæli valdið erfiðleikum í framkvæmd. Aðstæður eru oft þannig að fjöldi sameigenda hleypur á tugum og þá getur reynst erfitt að ná sameiginlegri niðurstöðu sem varðar viðkomandi sameign. Ekki hafa verið sett heildarlög um eignir í sameign heldur einungis um ákveðna flokka slíkra eigna, sbr. t.d. lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Meginregla eignarréttar um sérstaka sameign felur í sér að samþykki allra sameigenda þurfi til óvenjulegra ráðstafana og ráðstafana sem eru meiri háttar þótt venjulegar gætu talist.
    Færð hafa verið fyrir því rök að allir rétthafar að sameign verði að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hver fari með atkvæðisrétt fyrir hönd lögbýlisjarðar, ella verði atkvæðinu ekki beitt, og hefur raunin verið sú í framkvæmd. Til samræmis við þetta segir í reglugerð um veiðifélög að skriflegan samning um hver fari með atkvæðisrétt jarðar megi því aðeins taka gildan á félagsfundi að hann sé undirritaður af öllum eigendum viðkomandi jarðar. Óeðlilegt er að mikill minni hluti rétthafa að sameign geti komið í veg fyrir beitingu atkvæðisréttar enda geta miklir hagsmunir verið í húfi. Er breyting þessi því lögð til. Um atkvæðavægi eigenda sameignar eða milli ábúenda skulu gilda almennar reglur, en með því er m.a. átt við að atkvæðavægi í sameign fari að jafnaði eftir eignarhlutföllum. Ef ekki er hægt að styðjast við eignarhlutföll kann að vera rétt að ganga út frá því að atkvæðavægi sé jafnt á milli manna.

Um 3 og 4. gr.

    Með greinunum er gerð tillaga um breytingar á ákvæðum VII. kafla laganna, nánar tiltekið á ákvæði 44. og 47. gr.
    Í 3. gr. er lagt til að breytt verði reglum um skipan matsnefndar samkvæmt lögunum en um þetta vísast til umfjöllunar í 2. kafla. Þá er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að laun og annar kostnaður af starfsemi matsnefndar greiðist með fjárveitingum úr ríkissjóði. Þess í stað verði meginreglan sú að kostnaður af starfi nefndarinnar verði greiddur milliliðalaust af viðkomandi veiðifélagi, eins og var gert á grundvelli eldri laga um lax- og silungsveiði. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að í úrskurði matsnefndar skuli kveðið á um kostnað máls og skiptingu hans á aðila sem renni í ríkissjóð. Þær breytingar sem hér eru lagðar til fela því í sér einföldun á núverandi fyrirkomulagi.
    Í 4. gr. er í fyrsta lagi lagt til að 1. málsl. 1. mgr. 47. gr. verði breytt þannig að ekki verði lengur kveðið á um að kostnaður af meðferð máls renni í ríkissjóð. Er þetta til samræmis við þá breytingu að laun og kostnaður af starfi nefndarinnar skuli ekki greiðast úr ríkissjóði. Í öðru lagi er lagt til að við 1. og 2. mgr. 47. gr. bætist nýir málsliðir um að veiðifélag skuli að jafnaði bera kostnað af ágreiningsmálum og arðskrármati fyrir matsnefndinni. Á hinn bóginn geti nefndin ákveðið að kærandi skuli bera kostnaðinn að hluta eða öllu leyti ef um er að ræða tilefnislausa kæru, eða hún sett fram í þeim tilgangi að tefja framgang tiltekins máls. Styðst það við rík sanngirnisrök að veiðifélag sé ekki látið bera kostnað af málsmeðferð við slíkar aðstæður. Í þriðja lagi er lagt til að matsnefnd geti krafið veiðifélag um tryggingu fyrir þóknun nefndarmanna og öðrum kostnaði. Er þetta nauðsynlegt þar sem lagt er upp með að ríkið hafi ekki lengur milligöngu um greiðslu þóknunar. Skilyrði tryggingar er að matsnefnd leggi fram rökstudda kostnaðaráætlun við fyrstu fyrirtöku máls hjá nefndinni.

Um 5. gr.

    Í gildandi lögum er eingöngu gert ráð fyrir því að ákvörðun veiðifélags valdi bótaskyldu ef ákvörðunin veldur tilteknum veiðiréttarhafa (eða veiðiréttarhöfum) tjóni umfram aðra, sbr. 2. mgr. 49. gr. Ekki er því gert ráð fyrir að til bótaskyldu komi ef ákvörðun veiðifélags takmarkar veiði almennt og kemur í veg fyrir að veiðiréttarhafar njóti eðlilegs arðs af hlunnindum sínum. Af þeim sökum er lagt til að til viðbótar hinni almennu bótareglu komi sérstök bótaábyrgð þeirra sem greiða atkvæði um ráðstöfun veiði skv. nýrri 3. mgr. 40. gr., sbr. a-lið 2. gr. frumvarpsins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Af þessu leiðir að ekki kemur til bótaskyldu ef dregið er óverulega úr veiði, enda á skilyrðið um aukinn meiri hluta skv. nýrri 3. mgr. 40. gr. ekki við í þeim tilvikum. Þá leiðir ákvörðun samkvæmt umræddri 3. mgr. ekki sjálfkrafa til bótaskyldu. Þannig á ekki að koma til greiðslu bóta ef ákvörðunin var byggð á málefnalegum rökum. Með málefnalegum rökum er m.a. átt við að ákvörðunin stuðli betur að markmiðum laganna. Almennt verður að ganga út frá því að ákvörðun um að draga úr veiði skv. títtnefndri 3. mgr., sem fær aukinn meiri hluta atkvæða, byggist á málefnalegum forsendum, sérstaklega í þeim tilvikum þegar atkvæði eru ekki á fárra höndum.
    Í lokamálslið ákvæðisins er mælt fyrir um að þeir sem greiddu tillögunni atkvæði sitt séu sameiginlega (in solidum) ábyrgir gagnvart þeim sem lögðust gegn henni. Er þetta til hagræðis fyrir þá sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni, en um innbyrðis skiptingu bóta skal hlutfall í arðskrá ráða (pro rata). Ákvæði þetta haggar ekki bótarétti sem veiðiréttarhafi kann að eiga á grundvelli almennra reglna.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.